
Frá kulnun að bata – leiðin til aukins þreks og lífsgæða
iHeilsa

Við þurfum að viðurkenna að kulnun og langvinn þreyta eru raunveruleg ástand – ekki veikleiki né afsökun. Það næsta er að skilja að bati er mögulegur og hann hljómar mögulega ólíkt öllu öðru en því sem þú hefur heyrt um áður. Þetta snýst nefnilega ekki um að gera meira og skipuleggja betur - þetta snýst um að hægja á. En hvernig..? Hvernig er það hægt þegar ég er með alla þessa bolta á lofti sem ég VERÐ að sinna: fjölskyldu, hús, reikninga, vinnu, vini og allt annað?
Við lifum á tímum þar sem hraði og kröfur daglegs lífs geta orðið yfirþyrmandi. Fyrir marga endar það í kulnun – ástandi sem felur í sér algera örmögnun, líkamlega, andlega og tilfinningalega. Aðrir finna fyrir langvinnri þreytu sem á sér ekki alltaf skýringar í hefðbundnum læknisfræðilegum greiningum. Sumir glíma við ME (myalgic encephalomyelitis) eða langvinnan þreytusjúkdóm (chronic fatigue syndrome), þar sem orkan virðist hverfa og bataferlið er langt og snúið.
En það er von.
Leiðin til bata felur í sér nokkur lykilatriði:
Hægja á – Það þarf að gefa sér leyfi til að stoppa. Að segja „nei“ getur verið lækning í sjálfu sér. Hvíld er ekki uppgjöf, heldur nauðsynleg forsenda bata.
Orkustjórnun - Enduruppbygging orkukerfisins. Líkaminn þarf skilning og tíma til að byggja sig upp.
Andleg vinna – Sjálfsmynd okkar er oft tengd afköstum. Það getur verið sársaukafullt að horfast í augu við eigin takmörk, en í því býr líka frelsi. Að losa sig við fullkomnunaráráttu og sækja innri styrk getur umbreytt lífinu. Forgangsraða.
Samfélag og stuðningur – Við þurfum að heyra að við erum ekki ein. Að tala við fagfólk, vin eða fólk í svipaðri stöðu getur gert gæfumuninn.
Smá skref – stór áhrif – Hvert skref, jafnvel hið minnsta, er merki um framför. Við fögnum litlum sigrum.
Ef þú ert á þessum stað núna – þá vil ég segja við þig: Það er leið áfram. Þú þarft ekki að ganga hana ein. Ég veit hvernig hún liggur, því ég hef gengið hana sjálf – og ég er hér til að styðja þig. Það er hægt að byggja upp þrek, lífsgæði, tilgang og orku aftur – á þínum forsendum, í þínum takti.
Við gerum þetta saman.
Ingibjörg K. Halldórsdóttir